Okkar nálgun

Markaðssetning á netinu snýst alltaf um rétt tímasetta framsetningu upplýsinga eða vel úthugsað ávarp til líklegs viðskiptavinar

Það gildir einu hvort burðarásinn í markaðs-strategíunni er náttúrulegur sýnileiki á leitarvélum, greiddar leitarniðurstöður, efnismarkaðssetning eða samfélagsmiðla framtak, þá er grundvöllurinn sem allt veltur á yfirleitt smíðaður úr orðum. Þess vegna er vandlega unnin leitarorðagreining alltaf þungamiðjan eða hryggjarstykkið í allri undirbúningsvinnu. Sumt af hinum undirbúningsþáttunum, eins og t.d. samkeppnisgreining, snúast nánast alfarið um að rannsaka og auðga leitarfrasa-klasana sem við munum leggja til grundvallar í sýnileika-strategíu, vef-arkitektúr, Google Ads herferð, efnisskrifa-dagskrá, birtingaráætlun og pósta-plani.

Sum orð eða orðasambönd gefa mjög sterkar vísbendingar um það hvar væntanlegur viðskiptavinur er staddur í kaupferlinu. Út frá þessum upplýsingum er hægt að þaulskipuleggja hvar, hvernig og hvenær á að ávarpa hann, miðað við þau áform sem hann gefur til kynna með orðavali sínu. Allt markaðsframtak er svo bollalagt út frá leitarorðagreiningunni, þeirri hernaðaráætlun sem hún hjálpar til við að skipuleggja og þeirri aðferðafræði sem við kjósum að beita.

Þýðing og staðfærsla á margtyngdum vefjum

Þegar um er að ræða vefi á mörgum tungumálum er algengt og kannski skiljanlegt að vef-eigendur detti í þá gryfju að þýða vefina beint frá gefnu frum-tungumáli. Orð fyrir orð, síðu fyrir síðu. Með þessarri nálgun er þó hætt við því að vefirnir virki hjáróma á sumum tungumálunum, að þeir séu ekki að nota það tungutak sem markhópurinn býst við. Vant markaðsfólk, sem hefur unnið hugmyndavinnuna sem liggur að baki því að finna réttu nálgunina, sem hittir í mark og skapar réttu stemmninguna, hlýtur að skilja að ávarpið til væntanlegs viðskiptavinar hittir ekki í mark nema það sé miðað við hans forsendur.

Þegar maður nálgast verkefnið frá grunni fyrir hvert tungumál og hvert markaðssvæði fyrir sig, leiðir leitarorðagreining fljótt í ljós að orðaforði, kúltúr, markaðskúltur og vefkúltúr hinna ólíku markaðssvæða er ótrúlega ólíkur. Sum tungumál og menningarheimar hafa ótal leiðir eða nálganir að því að fjalla um eitthvað ákveðið ferli eða fyrirbæri, sem á sér aðeins eina augljósa leið á öðru tungumáli. Svo er það ekki beint til að einfalda málið þegar tungumálið hefur alls kyns beygingarmyndir, föll, tölu og aðrar breytur sem er er e.t.v. ekki til að dreifa í „frummálinu“. Svo hefur arabíska ótal orð yfir sand, grænlenskan er rík af snjó-hugtökum og þannig mætti lengi telja. Mynstrin, útfærslurnar og blæbrigðin eru óendanleg og „leitarfrasalandslag“ hvers tungumáls er óhjákvæmilega einfaldlega einstakt.

Vel skal vanda það sem lengi á að standa

Það er kannski ekki ástæða til að sökkva sér hyldjúpt í málvísindi, merkingarfræði, táknfræði, heimspeki og málspeki í öllum verkefnum. En það er svo sannarlega fyrirhafnarinnar virði að kortleggja samviskusamlega og af kostgæfni og útsjónarsemi það orða- og leitarfrasa umhverfi sem við ætlum að helga okkur og beita í okkar framsetningu… ef hún á að hafa tilætluð áhrif. Hjáróma framsetning virkar aldrei sannfærandi og slakar, grunnhyggnar þýðingar eru ekki til þess fallnar að skapa það traust sem er nauðsynlegt til að koma á viðskiptum. Þannig er þetta bara, við byggjum okkar hugmyndafræði í þessum efnum á langri reynslu og ótal dæmum.