Markaðssetning á leitarvélum (SEM)

Markaðssetning á leitarvélum, hvað er það?

Ef við tökum leitarvélina Google sem dæmi má í fljótu bragði skipta markaðssetningu á leitarvélum í tvo hluta

  • Náttúrulegar (organic) leitarniðurstöður
  • Greiddar leitarniðurstöður (t.d. Google Ads)

Þegar notandi leitar… slær inn leitarorð, er það oft í formi spurningar. Vandinn, þörfin eða löngunin er látin í ljósi með orði eða setningu sem þykir líkleg til að kalla fram þær upplýsingar sem óskað er. Við höfum kosið að kalla það leitarfrasa, og fjöllum ítarlegar um þetta mikilvæga orðaval á síðunni um leitarorðagreiningu.

Google listar í snarhasti upp þær síður sem þeir álíta að svari fyrirspurninni best. Leitarvélin raðar semsé mest „relevant“ síðum upp í einfalda röð samkvæmt einstöku kerfi (lógaritma) sem er í stöðugri endurskoðun hjá þeim. Í sinni einföldustu mynd eru leitarniðurstöðurnar til dæmis eins og á þessarri mynd hér til hægri: 10 vefsíður finnast á náttúrulegan hátt… í krafti eigin verðleika, skulum við segja*), og 7 til viðbótar fá að kaupa sér sæti á þessarri fyrstu niðurstöðusíðu. Það eru greiddu leitarniðurstöðurnar.

Í reynd eru leitarniðurstöðu-síðurnar oftast flóknari. T.d. með kortaniðurstöðum miðað við staðsetningu ef það á við leitina sem er framkvæmd og alls kyns sérsniðum, allt til að þjóna viðskiptavininum sem best hverju sinni. Síðan breiðir Google sig út um allt internetið með samstarfsneti sínu sem þeir kalla Google Search Network, sem er betur skýrt í umfjöllun um Google Ads.

Það eru fleiri leitarvélar en Google

…og Google er ekki alls staðar

Hafa ber í huga að þótt Google hafi yfirburðarstöðu á Íslandi (96,81% í febrúar 2019 skv. statcounter) og reyndar víðast hvar… þá eru fleiri leitarvélar, svo sem Bing, Yahoo, Ask, AOL, Baidu, Yandex og ótal fleiri. Google er semsé með 77,75% markaðshlutdeild í heiminum, Baidu hefur 13,97%, Bing 4,45%, Yahoo 2,33% og aðrar skipta með sér því einu og hálfa prósenti sem eftir er. (netmarketshare febrúar 2019). Yfirburðir Google og Baidu eru enn meiri í farsímum (81,26% og 16,28%).

Munum líka að Youtube er í raun næststærsta leitarvél veraldar og Amazon og Facebook koma á undan annarri eiginlegu leitarvélinni, Bing, sem er í 5. sæti (searchenginejournal janúar 2018)

Svo má ekki gleyma því að yfirburðir Google eru ekki alls staðar. Í Kína er t.d. Baidu með 71,4%, þar er markaðshlutdeild Google aðeins 2,7% (í fimmta sæti leitarvéla) og í Rússlandi hefur Yandex talsverða yfirburði með 53.97% hlutdeild markaðarins. Hvar er markhópurinn þinn?

*) Jú, það er nefnilega hægt að hafa töluverð áhrif á það hvar okkar síða lendir í röðinni. Um það snýst leitarvélabestun!